Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Meðganga

Hér getur þú nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast meðgöngunni. Meðal þess helsta er nákvæmt yfirlit yfir þroskaferli fósturs, myndir af fóstrinu á hverju stigi ferlisins, gröf yfir meðallengd og þyngd þess o.fl. Við hvetjum gesti til að fylgjast vel með þar sem margar nýjungar eru væntanlegar.



Fæðingaráætlun

Færst hefur mjög í aukana að móðir ásamt maka taki saman svokallaða fæðingaráætlun. Það er einfaldlega listi yfir þær óskir sem verðandi foreldrar hafa varðandi fæðinguna. Slíkir listar er teknir saman til að auðvelda hjúkrunarfólki, maka og öðrum að átta sig á þörfum og vilja móðurinnar og til að hægt sé að gera fæðinguna sem þægilegasta fyrir alla aðila.

Hvernig er fæðingaráætlun gerð?

Ráðlegt er að ræða þessi mál við fæðingarlækni eða ljósmóður. Ekki er vinsælt að mæta með langan kröfulista í fæðinguna og ætlast til þess að farið sé að öllu á listanum. En algengt er að fólk taki saman stuttan lista á blað eða leggi hann á minnið þar sem óskað er eftir ákveðinni lýsingu, stellingu, tónlist, þeim sem eiga að vera viðstaddir, hver klippa eigi á naflastreng, deyfingarmál, keisaraskurð, og önnur atriði sem komið geta upp við fæðingu. Verðandi móðir er oft undir miklu álagi og hormónabreytingum í fæðingunni og því er ráðlegt að hugsa út í þessi mál áður en komið er á fæðingardeildina.

Er fólk með sérstaka fæðingartösku?

Nokkuð hefur færst í aukana að foreldrar pakki niður í tösku ýmsum hlutum sem gott er að hafa á fæðingardeildinni. Helstu hlutir sem finna má í slíkum töskum eru þægilegur náttkjóll eða stór bolur til að fæða í, fæðingaráætlun, sokka, nuddkrem eða nuddolía, varasalvi, hárband, spegill (ef þú vilt sjá barnið fæðast), klukka með sekúnduvísi, bækur, blöð, geislaspilari og geisladiskar, myndavél eða myndbandstökuvél, listi með símanúmerum þeirra sem á að hringja í, sími og snarl fyrir makann. Mjög misjafnt er hvort foreldrar taki saman slíka tösku og hvert innihald hennar er. Hér voru aðeins taldir upp nokkrir algengir hlutir.

Eitthvað annað?

Þegar vatn hefur brostið og fæðingin er komin af stað er yfirleitt um 30 mínútur þangað til viðkomandi þarf að vera kominn upp á spítala. Því er ekki þörf á að hafa tilbúinn bíl í gangi, fæðingartösku og annað í aftursætinu síðustu dagana fyrir fæðingu. Þó er ráðlegt að hafa hugsað út í það sem taka þarf með og annað áður en kemur að því að vatn brestur.

Stuðst var við frásagnir foreldra og fræðibækur við ritun textans.