Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Öryggi barnsins

Fátt er mikilvægara en að gæta öryggis þegar börnin eru annars vegar. Undanfarin ár hafa komið fram margar litlar en sniðugar vörur á markað sem ætlað er að auka öryggi á heimilum. Hér má fræðast um helstu ráðstafanir sem gera má á heimili, í bílnum eða umferðinni varðandi nýjasta fjölskyldumeðliminn.


Bílar

Í umferðinni er mikilvægt að gæta öryggis og keyra varlegar en áður. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er óvanur umferðinni og mun viðkvæmari en þeir sem eldri eru. Mikilvægt er að keyra hægt og taka aldrei óþarfa áhættu í umferðinni. Foreldrar keyra nú um með líf annarra en sitt eigið.

Þurfa börn að vera í bílstólum?

Eina leiðin til að öryggi ungabarna sé gott í bíl er að þau séu í sérhönnuðum bílstólum. Slíkir stólar eru til af öllum stærðum og gerðum og fást í barnaverslunum og hjá tryggingafélögunum ýmist til kaups eða leigu. Stólana þarf að festa örugglega með bílbelti og eru leiðbeiningar um slíkt fáanlegar í verslun eða í leiðarvísi stólsins. Hafa þarf hugfast að barn vex upp úr stólnum á endanum og þarf þá að bregðast við með nýrri lausn.

Hvað tekur við af bílstólnum?

Fyrir börn sem vaxið hafa upp úr bílstólnum er hægt að fá sérstaka bílstóla fyrir eldri börn sem eru þá stærri og líkjast meira hefðbundnu bílsæti en smábarnastólunum. Fást þessi sæti einnig í verslunum og hjá tryggingafélögum. Einnig hefur tíðkast svonefndir púðar eða sessur sem hækka barnið upp í sætinu og tryggja að bílbeltið leggist rétt yfir líkama þess og tryggi öryggi sem best. Best er að skoða vel leiðbeiningar með hverjum stól og sjá hvað hann er talinn duga lengi, hvað barnið má vera þungt og hátt, o.s.frv.

Hvað með loftpúða bílsins?

Vel flestir nýlegir bílar eru búnir loftpúðum (e. airbag) sem eru staðsettir víða um bílinn. Til dæmis í hurðarpóstum, mælaborði, við hanskahólf, o.fl. Ráðlegt er að kynna sér vel þau atriði er varða þann bíl sem barnið er í. Til dæmis má aldrei setja barnabílstól í framsæti ef loftpúði fyrir farþega í framsæti er virkur. Sé loftpúðinn virkur og barn í bílstól í framsæti getur hann sprungið út við árekstur og valdið barninu gríðarlegu tjóni en púðarnir þenjast út á miklum hraða. Framleiðendur og umboð bíla hafa upplýsinga um sína bíla og einnig má lesa um þessi mál í handbók bílsins.

En barnalæsing?

Mjög mikilvægt er að muna eftir að setja barnalæsingu afturhurða á. Að öllu jöfnu er á enda afturhurða lítill takki sem stilla má á on eða off og setur barnalæsingu á eða tekur af. Þessar læsingar valda því að hurðaopnari innan á hurðinni virkar ekki og barnið getur því ekki í leik eða fikti opnað hurðina og fallið úr bílnum á ferð.

Er gott að hafa Barn-í-bílnum miða í glugganum?

Slíkt var mjög vinsælt fyrir nokkrum árum og eru ófáir bílar enn með slíka límmiða í afturglugganum. Ráðlegt er að verða sér út um slíkan miða svo aðrir ökumenn séu meðvitaðir um að barn sé í bílnum og fari sér þá hægar en ella. Hins vegar sjá ökumenn svona miða ekki fyrr en þeir koma nálægt bílnum og hefur miðinn þá lítinn tilgang annan en að minna nálæga ökumenn á að barn sé í bílnum og/eða að fara almennt varlega í umferðinni.

Hvað með sólhlífar í afturrúður eða dökkar filmur?

Margir setja upp svonefndar sólhlífar (sjá mynd að neðan til vinstri) í afturglugga þar sem barn situr. Ástæðan er að sterkt sólarsljós getur skinið í augu barnsins og valdið því miklum óþægindum. Börnin eru sjaldnast með sólgleraugu og geta ekki klætt sig úr ef þeim er heitt. Einnig hafa þau ekki endilega vit á að horfa ekki beint í sólina og gætu þannig skaðað augu sín ef þeim er ekki skýlt við sterku sólarljósi. Sumir láta setja sérstakar filmur á rúður afturhurða sem skyggja þá glerið alfarið (sjá mynd að neðan til hægri) en aðrir láta hlífar festar með sogskál duga. Þessar hlífar fást í flestum barnaverslunum. Filmurnar fást hjá sérstökum filmuísetningarfyrirtækjum sem eru þónokkur hérlendis.

Kostar þetta mikið?

Sólhlífar kosta mjög lítið í verslunum hérlendis. Um eða undir 2.000 krónur en sólarfilmur kosta öllu meira og er verð mjög breytilegt eftir tegund, magni, og þeim stað sem verslað er á.

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá tryggingafélögum hérlendis og erlendum forvarnarbókum.