Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Öryggi barnsins

Fátt er mikilvægara en að gæta öryggis þegar börnin eru annars vegar. Undanfarin ár hafa komið fram margar litlar en sniðugar vörur á markað sem ætlað er að auka öryggi á heimilum. Hér má fræðast um helstu ráðstafanir sem gera má á heimili, í bílnum eða umferðinni varðandi nýjasta fjölskyldumeðliminn.


Eldhús

Í eldhúsinu leynast fleiri hættur en á öðrum stöðum heimilisins. Til matseldar þarf margs konar eggvopn á borð við hnífa, skæri, o.fl. sem reynst geta hættuleg. Eldavélar og ofnar eru í eldhúsum sem og hreinsiefni og matvæli sem geta verið hættuleg litlum börnum.

Eru eldavélar hættulegar?

Já. Eldavélin er stærsta hættan í eldhúsinu. Gæta þarf að pottum sem eru á helluborði að sköft þeirra snúi alltaf inn að helluborðinu og aldrei fram af eldavélinni. Forvitið kríli gæti togað í haldfang og fengið yfir sig sjóðheitan vökva og hlotið alvarleg brunasár.

En ofnar?

Ofnar eru einnig hættulegir, sérstaklega séu þeir hluti af eldavélum og þar af leiðandi staðsettir í hæð sem barnið gæti náð til. Gler ofna hitnar oft mjög og getur brennt litlar hendur sem í forvitni snerta glerið. Opinn ofn getur verið stórhættulegur og gæta þarf þess að þegar tekið er út úr ofni að barn sé ekki nálægt og loka honum sem fyrst aftur.

Hvað með hnífa og þess háttar?

Hnífa ætti ekki að geyma þar sem börn ná til. Hnífa ætti í öllum tilvikum að geyma í lokuðum skúffum og forðast ætti að hafa hnífa og önnur eggvopn í þar til gerðum stöndum á eldhúsborði þar sem krílin gætu náð til þeirra og skaðað sjálfan sig eða aðra.

Hvernig læsi ég skápum og skúffum?

Hægt er að kaupa sérstakar klemmur sem loka skápum og skúffum og tryggja að barn komist ekki í hættulega hluti sem þar eru geymdir. Fást slíkar klemmur í barnaverslunum og hjá tryggingafélögum.

Hvaða matvæli eru hættuleg?

Fyrir litla líkama getur ofneysla salts til dæmis valdið ofþornun og dregið barn til dauða. Gleypi barn chili pipar eða annað slíkt getur það valdið sárum í maga þar sem meltingin ræður ekki við svo ofur sterka fæðu. En forðast mætti slík óhöpp með áðurnefndum klemmum sem loka skápum og öðru.

En þvottaefni?

Margir geyma ruslatunnu og þvottaefni undir vaskinum. Passa þarf að sá skápur sé lokaður svo börnin komist ekki í þvottaefni. Sama gildir um uppþvottavélina sem oft geymir þvottaefni í þar til gerðu hólfi. Sé uppþvottavélin skilin eftir opin meðan verið er að setja í vélina og barnið opnar hólfið og leggur þvottaefnið sér til munns er voðinn vís.

Hvað með raftæki?

Ef frístandandi raftæki eru í eldhúsinu svo sem kaffivélar, þeytari eða rafmagnshnífur þarf að gæta þess að rafmagnssnúrur séu alfarið þar sem barnið nær ekki til þeirra. Ef snúra úr kaffivél hangir við hlið innréttingar gæti barnið togað í hana og fengið kaffivélina yfir sig og slasast.

Eitthvað annað?

Ef óhöpp verða í eldhúsi á borð við stungusár af völdum hnífs, brunasár vegna vökva á eldavél eða barnið borðar þvottaefni eða annað slíkt er mikilvægt að hafa strax samband við 112 og fá nauðsynlegar upplýsingar um fyrstu hjálp. Alltaf skal fyrst hringja því það sem fólk heldur oft að sé besta lausnin getur aukið vandamálið sé það ekki rétt gert.

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Rauða Krossinum og tryggingarfélögum hérlendis.