Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Um eftirnöfn

Eftirnöfn, eða kenninöfn eins og þau heita í lögum, eru tvenns konar. Annars vegar föður- eða móðurnöfn og hins vegar ættarnöfn. Á Íslandi er algengast að menn noti föður- eða móðurnafn, til dæmis Jónsson og Jónsdóttir (föðurnafn) eða Margrétarson og Margrétardóttir (móðurnafn). Föður- og móðurnöfn skulu ávallt dregin af eignarfallsmynd skírnarnafns foreldris. Til dæmis Sigurðsson eða Sigurðarson (en ekki Sigurðson, með aðeins einu s-i).

Nokkrar reglur gilda um eftirnöfn

  • Leyfilegt er að nota bæði móður- og föðurnafn. Til dæmis börnin Þorsteinn og Steinunn sem eiga foreldrana Ólaf og Þorgerður. Fullt nafn þeirra má þá skrá á eftirfarandi hátt (og enn fremur er leyfilegt að skammstafa fyrra skírnarnafn af tveimur, eftir sérstökum reglum Hagstofu Íslands, Þjóðskrár).

    • Steinunn Ólafsdóttir, Steinunn Þorgerðardóttir, Steinunn Þorgerðardóttir Ólafsdóttir, Steinunn Ólafsdóttir Þorgerðardóttir.

    • Þorsteinn Ólafsson, Þorsteinn Þorgerðarson, Þorsteinn Þorgerðarson Ólafsson, Þorsteinn Ólafsson Þorgerðarson.

  • Þegar kenninafn er myndað af erlendu eiginnafni foreldris má sækja um að kenninafnið verði lagað að íslensku máli, en slík aðlögun er þó engin skylda. Til dæmis maður heitir Sven (t.d. Sven Þorsteinsson eða Sven Jensen). Hann getur þá sótt um að börn hans fái kenninöfnin Sveinsson og Sveinsdóttir, en einnig er heimilt að börnin séu nefnd Svensson og Svensdóttir (en ekki Svenson og Svendóttir, án eignarfallsendingar í kenninafnsstofninum).

  • Þeir sem nú bera ættarnöfn mega bera þau áfram, svo og niðjar þeirra. Enginn má taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.

  • Þeir sem eiga rétt á að bera ættarnafn mega bera það til viðbótar því að kenna sig til föður eða móður. Dæmi: Steinunn Þorgerðardóttir Briem. Enn fremur er heimilt að breyta ættarnafninu í millinafn. Dæmi: Steinunn Briem Þorgerðardóttir.

  • Íslenskur ríkisborgari má ekki taka sér ættarnafn maka síns. Honum er hins vegar heimilt að taka ættarnafn maka síns upp sem millinafn. Dæmi: Steinunn Ólafsdóttir giftist Þorsteini Þorgerðarsyni Briem. Hún má þá taka Briem upp sem millinafn og nefnast Steinunn Briem Ólafsdóttir (en hvorki Steinunn Ólafsdóttir Briem né aðeins Steinunn Briem).

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Dómsmálaráðuneytinu árið 2006.