Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Nafnbreytingar

Ýmsar ástæður geta legið að baki því að einstaklingur sem orðinn er sjálfráða, eða með aðstoð forsjármanna sinna, skiptir um nafn. Oft er fólk að bæta við nafni, skipta um hluta nafns eða fella niður hluta nafns sem það hefur verið óánægt með lengi. Einnig gerist það reglulega að fólk fellir niður föðurnafn sitt og tekur upp móðurnafn. Til dæmis fellur Jónsson niður og tekur upp Guðrúnarson.

Nokkrir punktar eru þó varðandi nafnabreytingar sem vert er að hafa hugfasta:

  • Dómsmálaráðherra getur við ýmsar aðstæður sem nefndar eru í VI. kafla mannanafnalaga leyft breytingu á skírnarnafni, millinafni og/eða kenninafni (t.d. að barn verði kennt til stjúp- eða fósturforeldris). Slíkar breytingar skulu þó aðeins leyfðar einu sinni nema sérstaklega standi á.


  • Það telst ekki nafnbreyting í eiginlegum skilningi þótt fullorðinn einstaklingur leggi niður kenninafn sem hann hefur borið og taki upp annað kenninafn sem hann á rétt á í þess stað. Ekki er því þörf á ráðherraleyfi til slíkrar nafnritunarbreytingar heldur skal hún tilkynnt Þjóðskrá Íslands. Dæmi: Dóttir Maríu og Guðmundar Karls er nefnd Guðmundsdóttir en má þess í stað nefnast Maríudóttir eða Karlsdóttir. Sérstöku máli gegnir þó um breytingu á kenninafni barns. Standi svo á að það foreldri barnsins sem það er kennt til sé breytingunni andvígt verður það foreldrið sem sækir um breytinguna að leita eftir leyfi dómsmálaráðherra fyrir henni.


  • Þjóðskrá Íslands getur leyft aðrar breytingar á ritun nafns á þjóðskrá, án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Dæmi: Maður getur óskað eftir að fella eitt eða fleiri af nöfnum sínum úr þjóðskrá eða að skammstafa eitt eða fleiri af nöfnum sínum (t.d. millinafn). Eyðublöð fyrir umsóknir um nafnbreytingar.


Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Dómsmálaráðuneytinu árið 2006.