Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Nöfn fólks af erlendum uppruna

Fólk sem er fætt erlendis og ber erlend nöfn og kemur hingað til lands fær ýmsar undanþágur hvað varðar nafnareglur og annað. Mikilvægt er að fólk af erlendu bergi brotnu þekki þessar reglur svo það geti gefið börnum sínum þau nöfn sem þau vilja svo sem erlend ættarnöfn, erlend millinöfn, og annað slíkt.

Nokkrir punktar um erlend nöfn:

  • Ef annað foreldri barns er eða hefur verið erlendur ríkisborgari má gefa því eitt skírnarnafn og/eða millinafn sem er gjaldgengt í heimalandi foreldrisins, jafnvel þótt nafnið eða nöfnin samræmist ekki íslenskum nafnareglum. Barninu verður þó að gefa a.m.k. eitt skírnarnafn sem samræmist íslenskum reglum.

  • Maður sem fær íslenskt ríkisfang má halda nafni sínu óbreyttu. Kjósi hann svo má hann líka taka sér eiginnafn, millinafn og/eða kenninafn sem samræmist íslenskum nafnareglum.

  • Þeir sem áður hafa fengið íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nafni sínu geta sótt um það til dómsmálaráðherra að fá að breyta nafni sínu til fyrra horfs, að hluta eða að öllu leyti. Sama gildir um niðja þeirra.

  • Erlendur ríkisborgari sem giftist Íslendingi má halda kenninafni sínu eða taka sér kenninafn maka síns, hvort sem um er að ræða ættarnafn eða föður- eða móðurnafn. Honum er enn fremur heimilt að kenna sig til föður eða móður maka síns. Dæmi: Mary Smith giftist Jóni Jónssyni og Anne Baker giftist Pétri Ægissyni Thors. Mary má þá nefna sig Mary Smith, Mary Jónsson eða Mary Jónsdóttir og Anne má nefna sig Anne Baker, Anne Ægisson Thors eða Anne Ægisdóttir. Annað dæmi: John Smith kvænist Maríu Jónsdóttur. Honum er þá heimilt að nefna sig John Smith eða John Jónsson

Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Dómsmálaráðuneytinu árið 2006.