Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Um skírnarnöfn

Forsjármönnum barns ber skylda til að gefa barninu nafn og í flestum tilvikum er þar átt við foreldra. Barnið fær nafn sitt eftir nokkrum leiðum og misjafnt hvað fólk kýs að gera. Við skírn í Þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi öðlast barnið nafn en einnig má sleppa skírn í trúfélagi og senda nafnið til forstöðumanna skráðs trúfélags. Enn ein leiðin er svo að senda tilkynningu um nafngjöf til Hagstofu Íslands - þjóðskrár.


Nafnið sem valið er þarf að falla undir ákveðnar reglur.

  • Nafnið þarf að geta tekið íslenskri eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.

  • Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.

  • Það skal ritað í samræmi við íslenskar ritvenjur nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

  • Það má ekki vera þannig að það geti orðið þeim sem ber það til ama.

  • Stúlku má aðeins gefa kvenmannsnafn og dreng aðeins karlmannsnafn.


Þau nöfn sem eru leyfileg eru þau sem skráð eru í mannanafnaskrá. En öll þau nöfn eru í leitarvélinni hér á ungi.is Mannanafnanefnd tekur reglulega ákvörðun um ný nöfn hvort þau séu leyfileg eða ekki. Venjulega er hvert mál afgreitt innan fjögurra vikna frá því að það berst nefndinni. Ef nefndin kemst að því að nafnið sem óskað er eftir sé óleyfilegt þá fæst nafnið ekki skráð í þjóðskrá og foreldrar verða að finna barninu annað nafn. Formlega séð er nafnið orðið til þegar það hefur verið skráð í þjóðskrá eða mannanafnaskrá. Ef nafn sem ekki er til eða hefur verið hafnað áður er sent til Hagstofu til skráningar er málinu vísað til mannanafnanefndar.


Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Dómsmálaráðuneytinu árið 2006.