Forsíða Meðganga Nöfn Öryggi barnsins

Nöfn

Það er fátt skemmtilegra en að leita að nafni á nýjasta fjölskyldumeðliminn. Margar hugmyndir hafa eflaust brotist um í kolli verðandi foreldra og erfitt að finna rétta nafnið. Hér getur þú lesið um nöfn, hvað þurfi að hafa í huga við val á nafni, og umfram allt leitað eftir nafni í sérhannaðri Nafnavél.


Um millinöfn

Hérlendis er leyfilegt að gefa barni eitt millinafn ásamt skírnarnafni en slíkt er þó ekki skylda. Millinöfn eru þess eðlis að bæði konur og karlar geta borið sama millinafnið. Til dæmis Sveinn Straumfjörð Jónsson og Guðrún Straumfjörð Jónsdóttir. Millinöfn eru eins og skírnarnöfn að því leitinu til að hægt er að gefa þau við skírn eða nafngjöf. Leyfilegt er að gefa hverju systkini sitt millinafnið (til dæmis Straumfjörð, Arnfjörð, Reykfjörð), eða gefa aðeins einu þeirra millinafn eða engu þeirra. Allt eftir því hvað talið er henta.


Nokkrar reglur gilda um millinöfn:

  • Millinafn skal skrifað í samræmi við almennar ritreglur íslensku nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Nafnið má ekki vera þannig að það geti verið barninu til ama.


  • Millinöfnum er vanalega skipt í tvo flokka, annars vegar almenn millinöfn og hins vegar sérstök millinöfn.


Almenn millinöfn

Almennt millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Til dæmis Straumfjörð, Sædal, Vattnes. Almenn millinöfn eru öllum heimil og eru því skráð í mannanafnaskrá.

Sérstök millinöfn

Ef að millinafn fullnægir ekki þeim reglum sem almennt gilda um millinöfn getur millinafn verið samþykkt ef að nákominn ættingi barnsins (alsystkini, foreldri, amma eða afi) bera nafnið eða hafa borið í fortíðinni. Dæmi um þetta er nafnið Bern sem dregið er af íslenskum orðstofni en hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli og er ekki ættarnafn á Íslandi. Þeir sem bera ættarnafn mega breyta því í millinafn og þeir sem ekki bera ættarnafn en eru samt af ætt sem notar almennt ættarnafn (eða eiga alsystkini, foreldra, ömmur eða afa með ættarnafnið) geta tekið ættarnafnið upp sem millinafn. Einnig má taka upp ættarnafn maka sem millinafn. Sérstök millinöfn eru ekki skráð í mannanafnaskrá.

  • Heimilt er að nota skírnarnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn. Til dæmis mega Guðrún og Jón hvort heldur þau vilja gefa Önnu dóttur sinni nöfnin Anna Guðrúnar Jónsdóttir eða Anna Jóns Guðrúnardóttir.
Ofangreindar upplýsingar voru fengnar hjá Dómsmálaráðuneytinu árið 2006.